Hvernig er hreinleiki gulls mældur?


Hreinleiki gulls

Hreinleiki er mældur í karötum og er eitt karat 1/24 eða um 4,1667 prósent. Hreint gull er því 24 karöt, en algengt er að skartgripir séu búnir til úr gulli sem er í kringum 14 karöt. Gullblanda sem inniheldur 16 hluta gulls og 8 hluta af öðrum málmi, til dæmis kopar, er 16 karöt.

Þessi háttur á að mæla hreinleika gulls á rætur að rekja til miðalda. Á 11. öld var orðið mark notað yfir mælieiningu fyrir þyngd í Þýskalandi, einkum þegar vega þurfti gull og silfur. Orðið mark var síðar notað um myntina en orðið karat var notað sem þyngdareining; eitt mark vó 24 karöt.

Hreint gull er of mjúkt til smíða og því jafnan blandað með kopar eða öðrum málmum þegar smíða á gripi úr gulli. Hreinleiki málmsins var síðan gefinn upp sem sá hluti þyngdar hans sem var gull. 16 karata peningur var því búinn til úr 16 hlutum gulls á móti 8 hlutum af einhverjum öðrum málmi. Í dag er karat ekki þyngdareining heldur hlutfallseining um hreinleika gulls en mark er enn haft um gjaldmiðil Þýskalands sem kunnugt er.

 

(heimild: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1825)