Hvað er silfur


Hvað er silfur? Hvernig verður það til?

Silfur er svokallað frumefni. Hugtakið frumefni er notað um efni sem ekki er hægt að kljúfa í önnur einfaldari efni með aðferðum efnafræðinnar.

Silfur er frumefni númer 47 í lotukerfinu og efnatákn þess er Ag. Það er dregið af latnesku heiti silfurs sem er Argentum. Nafn Argentínu í Suður-Ameríku á rætur að rekja til þess.

Silfur er ekki uppfinning heldur myndast það í miklum hamförum þegar stjörnur hrynja saman og springa. Þá losnar gríðarleg orka. Öll frumefni sem eru þyngri en járn verða til á sama hátt. Um myndun frumefna má lesa í fróðlegu svari eftir Ottó Elíasson við spurningunni Hvernig verða frumeindir til?

 

Silfur hefur verið þekkt frá því sögur hófust. Myndin er frá lokum 15. aldar og sýnir silfurnámu og silfurvinnslu.

Silfur hefur verið þekkt frá því sögur hófust. Silfur er nokkrum sinnum nefnt í fyrstu Mósebók Gamla testamentisins og er það líklega elsta ritheimildin um silfur. Silfur hefur hæsta leiðni allra málma við staðalskilyrði.

(Heimild: Vísindavefurinn https://www.visindavefur.is/svar.php?id=66355)